Veritas Capital og Arango hafa undirritað samninga um innleiðingu CRM lausna frá Arango fyrir félög samsteypunnar sem byggja á Dynamics 365 & Power Platform frá Microsoft.
Veritas sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu og eru þau hvert um sig í fararbroddi á sínu sviði. Dótturfélög í samstæðu Veritas eru Artasan, Distica, MEDOR, Stoð og Vistor. Móðurfélagið, Veritas, veitir dótturfélögunum stoðþjónustu, við umsýslu fjármála, upplýsingatækni, mannauðsstjórnun o.fl. svo þau geti einbeitt sér að kjarnastarfsemi sinni.
“Að undangenginni mótun á þjónustustefnu Veritas samsteypunnar og forgreiningar fyrir vali og innleiðingu á CRM kerfi var ákveðið að semja við Arango um innleiðingu CRM lausna í Microsoft umhverfi. Reynsla starfsmanna Arango vóg þar þungt en lausnir frá Microsoft falla einnig vel að heildarumhverfi og tæknistefnu Veritas samsteypunnar.” segir Hákonía Jóhanna Guðmundsdóttir deildarstjóri upplýsingatæknideildar Veritas.
CRM lausnir Arango munu styðja við sölumál, viðskiptastýringu og þjónustuferla fyrirtækisins og gefa betri yfirsýn yfir samskipti við viðskiptavini, birgja og aðra hagsmunaaðila. Lausnirnar eru öflugur grunnur að stafrænni vegferð fyrirtækjanna. Lausnir Arango hafa þegar verið teknar í notkun hjá Artasan og Distica og munu önnur félög innan samsteypunnar fylgja í kjölfarið. Fyrirtæki Veritas hafa áður nýtt Salesforce CRM lausnir en nú munu lausnir Arango byggðar á Dynamics 365 og Power Platform frá Microsoft koma í þeirra stað.
“Innleiðing á CRM kerfinu hefur farið vel af stað og starfsmenn verið jákvæðir og náð að tileinka sér notkun þess á stuttum tíma. Við sjáum nú þegar ávinning koma fram með aukinni yfirsýn og betra aðgengi að upplýsingum fyrir starfsmenn.” segir Brynjúlfur Guðmundsson framkvæmdastjóri Artasan.
Arango býður Veritas samstæðuna velkomna í ört vaxandi hóp viðskiptavina fyrirtækisins.
Comentarios