top of page

Sögulegur stafrænn áfangi í þágu skilvirkni og öryggis

Samgöngustofa, Arango og Dokobit náðu merkum áfanga í vikunni þegar fyrsta nýskráningin á bíl fór fram rafrænt.


Nýjar vefþjónustur um nýskráningu ökutækja sem hafa verið í þróun eru nú tilbúnar til notkunar og gefst öllum bílaumboðum kostur á að tengjast þeim. Vefþjónusturnar auka öryggi í meðferð gagna og spara tíma og fyrirhöfn allra aðila. Þar sem viðskiptin verða pappírslaus og akstur með gögn óþarfur er þessi nýjung sömuleiðis mjög umhverfisvæn.


“Þetta er stórt skref í sögu skráninga ökutækja á Íslandi. Lítið verkefni þar sem átti að útbúa rafrænt umboð til undirritunar gagna er orðið að rafrænni, pappírslausri nýskráningu sem Samgöngustofa ber ábyrgð á og var þróuð í góðri samvinnu við hugbúnaðarfyrirtæki. Ferlið á eftir að spara mikla vinnu og auka öryggi í skráningum.” segir Sædís Jónasdóttir, deildarstjóri þjónustudeildar Samgöngustofu.


Kaupendur nýrra ökutækja geta skrifað undir með rafrænum hætti hvar og hvenær sem er og gögnin eru vistuð á öruggum stað með skilgreindum aðgangsstýringum. Eftir rafræna undirritun gagna sendir vefþjónustan þau til Samgöngustofu þar sem þau eru móttekin, villuprófuð og staðfest með sjálfvirkum hætti. Gera má ráð fyrir að þessi stafræna nýjung geti aukið skilvirkni og þægindi verulega þannig að tímasparnaður notenda verði allt að 50%.


"Við erum stolt af því að hafa átt þátt í því að nýskráning ökutækja verði með fullu rafræn. Vefþjónustur Dokobit fyrir rafrænar undirskriftir eru áreiðanlegar og sveigjanlegar lausnir sem eiga þátt í að einfalda ferla hjá fjölmörgum fyrirtækjum á Íslandi og víðsvegar í Evrópu" Ragna K. Magnúsdóttir, Viðskiptastjóri Dokobit á Íslandi


“Það að vera komin með fullsamþætta og rafræna lausn til nýskráninga ökutækja hjá okkar viðskiptavinum tryggir öryggi gagna og eykur skilvirkni til muna frá því sem áður var. Svo er þetta svo umhverfisvænt. segir Erla Andrea Pétursdóttir, ráðgjafi hjá Arango.


Lausnir Arango byggja á Dynamics 365 og Power Platform frá Microsoft sem fjölmörg fyrirtæki og stofnanir nýta nú þegar í sínum rekstri og henta því vel umhverfi þeirra. Lausnir Arango geta nýst við að stafrænivæða fleiri þjónustuferla hjá fyrirtækjum og stofnunum.


Til nánari upplýsinga hafið samband við Arango: arango@arango.is

Comments


bottom of page