Arango hefur hlotið viðurkenninguna fyrirtæki ársins 2024 hjá VR eftir niðurstöðu könnunar VR sem gerð er meðal starfsmanna fyrirtækja í landinu. Könnun VR á Fyrirtæki ársins er stærsta vinnumarkaðsrannsókn á Íslandi og á sér yfir aldarfjórðungs sögu. Gallup lagði könnunina fyrir og sá um úrvinnslu niðurstaðna.
"Við hjá Arango erum gríðarlega ánægð og þetta sýnir þann góða árangur sem við höfum náð við uppbyggingu vinnustaðarins. Starfsfólkið okkar er það sem skapar starfsandann og vinnuumhverfið á hverjum degi og færum við því miklar þakkir fyrir að gera Arango að þessum frábæra vinnustað sem hann er. Við erum ákaflega stolt af þessari viðurkenningu" Tinna Björk Hjartardóttir, stjórnarformaður Arango
Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu þar sem stjórnendur og hluti starfsfólks Arango veitti viðurkenningunni móttöku. Það voru þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur sem afhentu viðurkenningar til fyrirtækja í þremur stærðarflokkum.
Í könnun VR er heildareinkunn fyrirtækja reiknuð út frá viðhorfi starfsfólks til ólíkra þátta í starfsumhverfi fyrirtækjanna. Þau fyrirtæki sem skara framúr í hverjum flokki hljóta svo nafnbótina fyrirtæki ársins og var Arango þar á meðal ásamt því að vera með hæsta skor í sinni atvinnugrein.
Við hjá Arango óskum einnig öðrum aðilum sem hlutu og voru tilnefndir til þessara verðlauna innilega til hamingju með þeirra árangur í uppbyggingu á framúrskarandi vinnustöðum.
Comments